Sími 441 9860

Sagan

Sagan

Upphafið að tilurð Örva má rekja til ársins 1982 þegar Kópavogsbær sótti um leyfi til að reka vinnustofu fyrir öryrkja og aldraða. Hugmyndin var að reka vinnustofu fyrir fatlaða, aldraða og konur sem vildu sækja vinnu utan heimilis síns.

Starfsleyfi fyrir starfsemi Örva var síðan veitt 1983 og skipuð nefnd til að huga að verkefnavali fyrir hinn nýja vinnustað. Í nefndinni sátu tveir bæjarfulltrúar, fulltrúi frá Sunnuhlíð, ASÍ og Félagi íslenskra iðnrekenda. Nefndin starfaði í samráði við atvinnumálafulltrúa og félagsmálastjóra Kópavogsbæjar. Staða Örva í dag, með tilliti til verkefna, viðskiptasambanda og framleiðslu, byggir meðal annars á starfi þessarar nefndar.

Sama ár, 1983, var einnig samþykkt að skipa Örva stjórn. Þrír fulltrúar voru kosnir af bæjarstjórn Kópavogs og tveir voru tilnefndir af félagsmálaráðherra. Fyrsti formaður stjórnar var Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og alþingismaður.

Þann 24. febrúar 1984 tók Örvi svo til starfa og var til húsa í kjallara hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar. Þar var Örvi til ársins 1987 er staðurinn flutti í nýtt húsnæði að Kársnesbraut 110.

Stjórn Örva starfaði allt til 1996 er hún var lögð niður þar sem ekki var gert ráð fyrir sérstökum stjórnum í þá nýjum lögum um málefni fatlaðra. Það ár var húsnæði Örva stækkað um 163 fermetra um leið og ríkið eignaðist húsnæðið.

Þann 1. janúar 2011 færðist starfsemi Örva til Kópavogsbæjar á ný þegar þjónusta við fatlað fólk fluttist frá ríki til sveitarfélaga. Innkaup, rekstur tækjakosts, laun þjónustunotenda o.fl., er þó kostað af Örva í gegnum þær tekjur sem aflast við að þjónusta viðskiptavini Örva, en öll verkefni sem unnin eru í Örva eru útseld til fyrirtækja og einstaklinga.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica